Færsluflokkur: Bloggar

Áskoranir og nýtt upphaf

Fólk með andlegar áskoranir getur tjáð sig meira einsog ég geri stundum en með misjöfnum árangri. Mér bráðvantar einhvern fáránlegan vitleysing sem er furðulegri en ég, svo mér líði aðeins betur með það sem ég er að gera. Klaufaleikaverðlaun í boði.

 

En að öllu gamni slepptu. Það er í eðli manneskjunnar að tjá sig, hluti af eðlilegu lífi. Ef hún ekki nær að tjá sig og hugmyndir sínar getur það undið upp á sig og dregið dilk á eftir sér. Ósigurinn yfir tjáningarleysinu getur síðan breyst í neikvæðni og niðurrif án þess að manneskjan átti sig á því hvað er að gerast og fer að ásaka sjálfa sig án þess að átta sig á samhengi hlutanna.

Manneskjur eru ekkert verri þó þær geri mistök, heldur er hér um illa anda sem ráðast á veiklundaðar manneskjur, kveða allt illt um þær og fá þær til að hugsa ljótar hugsanir um sjálfa sig og heiminn sem magnast síðan bara upp og verður verra með tímanum því þeir nærast á neikvæðri orku.

Allt sem þessir andskotar segja er lygi. Manneskjur eru mikið betri, fallegri og dýrmætari en hver djöfull segir. Og þessi svokölluðu vandamál og sjúkdómar eru ekki það sem að okkur hefur verið logið og við jafnvel þvinguð til að trúa á.

Heldur aðeins áskoranir til að sigrast á. Eitthvað sem engin ógn er af en getur kennt okkur eitthvað nítt og gert okkur að betri manneskjum. Auðmýkt er grundvallaratriði og annað er tortryggni og andúð á öllu sem hreykir sér gegn hinu æðsta.

 

Ég ætla algjörlega að snúa við blaðinu og taka nýja stefnu í lífinu. Ég ætla að hætta að leika guð og ætla að leyfa öllu að vera einsog það er. Ég ætla að sýna aumýkt í hvívetna og byrja að vinna í mínum málum, játa syndir mínar ef svo má segja.

Og taka hið náttúrulega fram yfir hið ónáttúrulega, því þannig ná þessir djöflar taki á manneskjunni með því að kitla egóið, sem þróast svo út í hroka og endar í hégóma.

Ég er líka byrjaður að vinna með fólki sem er með svipaða sýn og ég og það var það sem hjálpaði mér þegar ég var kominn í algjörar ógöngur með sjálfan mig sem ætlaði allt að enda á hinn hræðilegasta hátt. Þá fékk ég hjálp frá hinu æðsta sem ég skildi ekki þá en er farinn að skilja betur núna.

Tíminn leið, ég braut odd af oflæti mínu og leitaði mér upplýsingar um það sem ég á að vera með. Náðsamlega fann ég alvöru fólk sem hefur fengist við að hjálpa fólki í minni stöðu í ást og virðingu. Þetta bjargaði lífi mínu og læknaði sálu mína að hluta því ég fékk að skilja betur hvað hafði gerst og hvernig í pottinn er búið.

Þetta eru góð tíðindi, að í heiminum er til alvöru fólk sem er annt um geðsjúka einstaklinga og kann að nálgast þá í ást og virðingu sem gefur þeim tækifæri á lækningu og heilun, þar sem hinn geðsjúki fær að vera leiðandi í eigin bata. Hversu heimsk getur mannskepnan verið að halda eitthvað annað.

Annað sem ég mun gera, ég verð með reglulegar stöðuuppfærslur, til að ná að vinna betur úr þessu; góðar ábendingar eru vel þegnar.

Geðheilbrigðismál á landinu hafa alltof lengi verið undir neikvæðum formerkjum og fáir sem gefa sig að því eða átta sig á einfaldleikanum sem fellst virðingu fyrir manneskjunni einsog hún er óháð getu og sjálfsákvörðunarrétti hennar.

Manneskjur verða að hjálpa hvort öðru meira til að ná að sigrast á þeim erfiðleikum sem að mannkyninu steðja, því mannkynið er i eðli sínu ein heild.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband